Um þriðjungur fyrirtækja á landinu hyggst fjölga starfsfólki sínu á komandi mánuðum og hafa aldrei fleiri haft í hyggju að fjölga starfsfólki frá upphafi faraldursins. Þetta kemur fram í nýrri könnun frá Gallup fyrir fjármála- og efnahagsráðuneytið.

Í könnunni er greint frá því að um fjórðungur þátttakenda hafi þurft að fækka starfsfólki sínu í heimsfaraldrinum en nú virðist vera að fara að hefjast viðsnúningur í ráðningu á starfsfólki. Helmingur þeirra sem að fækkaði starfsfólki sínu í faraldrinum reikna með að fjölga því á komandi mánuðum. Þá hyggst fjórðungur þeirra fyrirtækja sem ekki þurftu að segja upp starfsfólki reikna með að bæta við sig fólki.

Þá er einnig greint frá því að allir forsvarsmenn fyrirtækja í ferðaþjónustu hafi þurft að segja upp starfsfólki en nú kveður við annan tón og telja um 70% forsvarsmanna í ferðaþjónustu að starfsfólki verði fjölgað.

Þá var einnig athugað hversu vel fyrirtæki væru undirbúin fyrir tímabundinn áföll á næstu mánuðum út af heimsfaraldrinum. Sagðist rúmlega helmingur vera vel í stakk búið við áföllum og tæplega þriðjungur sagðist vera hvorki illa né vel undirbúin við áföllum. Tæp 20% fyrirtækja eru illa búin við áföllum.

Frá því að faraldur hófst hafa aldrei fleiri fyrirtæki reiknað með því að bæta við sig starfsfólki.