Hópur tölvuþrjóta sem kallar sig Anonymous hefur komið upp um áform aðila sem ætluðu sér að ráðast á og veikja WikiLeaks. Tölvuþrjótarnir réðust í síðustu viku á tölvukerfi örrygisfyrirtækisins HB Gary Federal og stálu þar þúsundum tölvupósta sem voru birtir á netinu.

Með þessu vildi hópurinn hefna sín á fyrirtækinu, en forstjóri þess Aaron Barr lýsti því nýlega yfir að net tölvuþrjótanna væri upplýst og vitað væri hverjir stýrðu hópnum. Í tölvupóstunum sem voru settir á netið kemur fram, að því er virðist, að til standi að ráðast á heimasíðu Wikileaks og draga úr trúverðugleika þeirra blaðamanna sem styðja aðgerðir Wikileaks.

The Independent greinir frá þessu í dag. Samkvæmt gögnum sem blaðamenn Independent hafa fengið að sjá voru fyrirtækin HB Gary Federal, Palantir Technologies og Berico Technologies öll tilbúin að ráðast á Wikileaks. Sagt er að á næstunni muni Wikileaks birta viðkvæm skjöl um rekstur Bank of America

Í frétt Independent segir að Bank of America tengist ekki málinu beint, en ætlunin virðist hafa verið að bjóða bankanum að ráðast á Wikileaks. Skilaboðunum var komið áleiðis til lögfræðistofunnar Hunton and Williams sem sér um mál Bank of America.Talsmaður Bank of America neitaði þó öllum ásökunum um tengsl bankans við öryggisfyrirtækin.