Rekstrarafgangur Kópavogsbæjar nam 186 milljónum króna í fyrra. Það er 84 milljónum krónum meira en áætlanir gerðu ráð fyrir, að því er fram kemur í ársreikningi Kópavogsbæjar. Reikningurinn var lagður fram til fyrri umræðu á fundi bæjarstjórnar í dag.

Fram kemur í ársreikningnum að tekjur námu 20.576 milljónum króna á árinu en bein rekstrargjöld námu 15.741 milljónum króna. Hagnaður fyrir fjármagnsliði og afskriftir nam 4.835 milljónum króna. Sjóðstreymi var sterkt og nam veltufé frá rekstri tæpum 2,8 milljörðum króna.

Þá segir í uppgjöri bæjarins að hagnaður vegna lóðaúthlutana nam tæpum 800 milljónum króna í fyrra. Ekki var gert ráð fyrir því í lóðaúthlutunum í áætlun ársins. Til samanburðar var hagnaður af lóðaúthlutunum árið 2011 rétt rúmar 335 milljónir króna.

Skuldahlutfall samstæðu Kópavogsbæjar var um síðustu áramót 206% en var um 242% þegar hæst var árið 2010. Það er talsvert yfir lögbundnu skuldahlutfalli upp á 150%. Í uppgjörinu kemur fram að stefnt sé að því að hlutfallið verði komið undir 150% fyrir árið 2018. Aðlögunartíminn til að ná því er til ársins 2023.

Uppgjör Kópavogsbæjar