Siv Friðleifsdóttir, þingflokksformaður Framsóknarflokks, segir lausatök blasa við þegar aðgerðir ríkisstjórnarinnar í efnahagsmálum eru skoðaðar og engar aðgerðir sjáist. Brýnt sé að taka erlent lán til að efla gjaldeyrisforðann og hefja stýrivaxtalækkanir sem fyrst.

„Þeir efnahagsráðgjafar sem við höfum talað við leggja mjög mikla áherslu á að efla gjaldeyrisforðann. Taka þarf lán sem fyrst til þess að styrkja gjaldeyrisforða Seðlabankans, ekkert bólar þó á láni," segir Siv. Forsætisráðherra hafi gefið það í skin í afar langan tíma að lánið sé alveg að bresta á, enda hafi mikið legið á í þinginu að fá þessar heimildir til lántöku. Það líti út fyrir að það hafi hlaupið einhver snurða á þráðinn sem ríkisstjórnin þurfi nú að greina frá.

Siv segir að Framsóknarflokkurinn leggi einnig áherslu á að Íbúðalánasjóður komi frekar inn í fasteignalán bankanna m.a. þannig að hann tæki yfir fasteignalán þeirra sem væru undir ákveðnu hámarki. Þannig mætti létta á bönkunum.

Í helgarblaði Viðskiptablaðsins birtast viðbrögð Kristins H. Gunnarssonar, þingflokksformanns Frjálslyndra, Arnbjargar Sveinsdóttur, þingflokksformanns Sjálfstæðisflokksins, Gunnars Haraldssonar, forstöðumanns Hagfræðistofnunar HÍ, Gylfa Arnbjörnssonar, framkvæmdastjóra ASÍ, Helga Magnússonar, formanns SI og Vilhjálms Egilssonar, framkvæmdastjóra SA við stöðu í efnahagsmálum og hvað þurfi að gera til þess að bæta ástandið.

Í blaðinu birtast einnig aðsendar greinar eftir Guðna Ágústsson, formann Framsóknarflokksins og Katrínu Jakobsdóttur, varaformann Vinstri grænna, um stöðuna í efnahagsmálum.

______________________________________

Nánar verður fjallað um málið í helgarblaði Viðskiptablaðsins. Áskrifendur geta lesið blaðið á pdf-formi hér á vefnum eftir klukkan 21:00 í kvöld. Þeir áskrifendur sem ekki hafa sótt um aðgangsorð til að lesa blaðið á vefnum geta gert það hér .