Áhættufælni hefur aukist verulega á alþjóðlegum fjármálamörkuðum það sem af er marsmánuði og bendir fátt til þess að láns- og lausafjárkreppan sem hófst um mitt síðasta ár sé í rénun, að sögn greiningardeildar Glitnis.

„Þannig hefur svokallað TED-álag (e. TED spread) sem mælir muninn á lánskjörum banka sín í milli annars vegar, og ríkistryggðum skammtímavöxtum hinsvegar, hækkað verulega í Bandaríkjunum síðustu daga og einnig þokast upp í Bretlandi og á evrusvæði.

Við áföll á fjármálamörkuðum er eðlilegt að ofangreint álag hækki og er orsökin tvíþætt: Annars vegar krefjast fjármálastofnanir hærri vaxta fyrir lánsfé hvor hjá annarri þegar óvissa eykst um greiðslugetu mótaðilans. Hins vegar fylgir slíkum óróa gjarnan flótti í öryggi ríkistryggðra eigna á borð við ríkisvíxla. TED-álagið er þó mun lægra nú en raunin var í desember í fyrra þegar margir óttuðust að fjármálastofnanir myndu eiga í verulegum lausafjárerfiðleikum um áramót," segir greiningardeildin.