Sigurjón Árnason, bankastjóri Landsbankans segir það mikið áhyggjuefni ef aðilar vilja ekki nýta sér þær auðlindir sem kostur er á hér á landi. Þetta sagði Sigurjón á morgunfundi Viðskiptablaðsins sem nú stendur yfir. Hann sagði auðlindirnar vera verðmætar og betra væri að fyrirtæki greiddu arð hér á landi en ekki erlendis og tók Norðurál á Grundartanga sem dæmi.

Bankarnir þurfa að sækja sér aukin innlán

Sigurjón rakti í ræðu sinni þær miklu breytingar sem hafa orðið í íslensku efnahagslífi m.a. með samningnum um Evrópska efnahagssvæðisins og einkavæðingu bankanna. Öfugt við það sem margir hefðu haldið hefðu erlendir bankar ekki sýnt því mikinn áhuga á að hasla sér völl á Íslandi, niðurstaðan hafi orðið þveröfug og íslensku bankarnir hafi sótt út sem hafi haft mikil og jákvæð áhrif á íslenskt efnahagslíf í heild.

Með því hafi áhættudreifing batnað og kerfið í heild styrkst. Útrásin hafi gengið mjög vel framan af en í lok árs 2005 hafi menn fariðað skynja tortryggni, m.a vegna mikils viðskiptahalla, verðbólgu. Þetta hafi síðan komið fram í mjög neikvæðri umræðu snemma ársins 2006 um Ísland og íslensku bankana. Við þessu hafi verið brugðist og menn náðað vinna sig út úr þessu enda hafi ástand á mörkuðum í heild mjög hagfellt.

Sigurjón benti á að eftirspurn eftir íslenskum bankabréfum hefði í raun verið mikil, m.a vegna þess að þeim hafi verið pakkað inn í skuldabréfavafninga. Þetta sé hins vegar markaður sem sé algerlega sprunginn í dag.

Hann sagði niðurstöðuna og þann lærdóm sem megi draga vera þá að íslenskir bankar þurfi að vera með hlutfallslega mikið lausafé, þeir þurfi að verja eigið fé sitt fyrir sveiflum í krónunni og í þriðja lagi þurfi bankarnir að afla sér fjár með auknum innlánum.

Íslenska myntsvæðið of lítið?

Þá sagði Sigurjón afleiðing kreppunnar m.a. vera það að fjármagn sé aðeins lánað til afar skamms tíma og það sé í raun vandamál heimsins alls. Þá benti Sigurjón á að nýjar bókhaldsaðferðir sem byggja á því að færa allt við markaðsvirði á hverjum tíma hafi magnað upp sveiflurnar og skapað áður óþekkt vandamál á tímum allsherjarkreppu á mörkuðum heimsins. Vandmálin breytist mjög hratt vegna þessa sem aftur skapi mjög mikla óvissu. Ísland sé á jaðrinum með sín sérkenni og því komi þessi staða ámörkuðum illa við íslensku bankana þótt skuldatryggingaálag á marga stærstu banka heimsins sé raunar komið út úr öllu korti og fái ekki staðist.

Sigurjón segir að alþjóðavæðing íslenska hagkerfisins hafi breytt öllum skilyrðum og þá einnig í sambandi við íslensku krónuna. Hann segist telja að íslenska myntsvæðið sé ekki nógu stórt fyrir íslensku bankana þótt þeir eigi að geta staðið af sér núverandi kreppu. Það þurfi að leggjast yfir  það að fara ofan í saumana á myntmálunum þótt þar séu kannski engar einfaldar lausnir hér og nú.