Akta Stokkur, hlutabréfasjóður í stýringu hjá Akta sjóðum, seldi um 2,4% hlut í flugfélaginu Play í síðasti mánuði og fer nú með 2,2% hlut í félaginu samanborið við 4,6% í lok febrúar. Út frá meðalgengi Play í síðasta mánuði má ætla að sjóðurinn hafi fengið upp undir 375 milljónir fyrir söluna.

Fjárfestingasjóðurinn Stefnir – Innlend hlutabréf kemur nýr inn á hluthafalistann og fer nú með 1,93% hlut í félaginu sem er um 337 milljónir að markaðsvirði.

Sjóðir á vegum Akta sjóða voru um tíma stærsti hluthafi Play. Þegar mest lét áttu sjóðirnir Stokkur, HS1 og HL1, með tæplega 13% hlut í félaginu í september síðastliðnum. Á lista yfir 20 stærstu hluthafa Play er nú einungis að finna Akta Stokk með 2,2% hlut.

Akta Stokkur er einnig meðal stærstu hluthafa Icelandair en eignarhlutur sjóðsins stækkaði úr 1,34% í 1,49% í mars.