„Hagvöxtur hér byggist eins og víðar á að fjárfesting og einkaneysla sé í góðum vexti. Ef horft er á fjárfestingar þá hræðumst við það umhverfi sem hér hefur verið að byggjast upp ofan á þá óvissu sem hér ríkir," segir Almar Guðmundsson, framkvæmdastjóri Félags atvinnurekenda í nýjast tölublaði Viðskiptablaðsins.

„Við óttumst að viljinn til fjárfestinga hverfi vegna þess að menn hræðist umhverfið sem hér er, jafnvel þó vaxtastigið sé að koma niður. Þar hræðast menn áframhaldandi óvissu í kringum fjármálakerfið og að íhlutun stjórnvalda, breyttar reglur og óvissa með skattastefnu þvælist fyrir fjárfestum sem vilja taka þátt í endurreisninni. Því velja þeir fremur að fjárfesta bara í ríkisskuldabréfum eða öðru í stað þess að taka þátt í atvinnurekstrinum.

Síðan er einkaneyslan mjög mikilvæg uppspretta hagvaxtar. Kaupmáttur launa er ekki mjög líklegur til að vaxa hratt á næstunni, auk þess sem það er óvissa um kjarasamninga. Óvissa í kringum skuldamál heimila og fyrirtækja mun fyrirsjáanlega plaga okkur vel inn í næsta ár ef ekki lengur. Þegar við horfum svo á hagvaxtaspár Seðlabankans finnst okkur þeir því miður vera full bjartsýnir varðandi einkaneysluna. Við erum nú búin að upplifa átta til tíu samdráttar-ársfjórðunga í einkaneyslu. Því miður er ég ekki mjög bjartsýnn á aukna einkaneyslu enda er eftirspurnin í hagkerfinu ekki mjög mikil. Það þarf skýrari hvata til að hún fari að vaxa að einhverju ráði. Hættan er sú að við séum að upplifa stöðnun og verðhjöðnun."