Verndaraðgerðir kínverskra stjórnvalda og birgðasöfnun á áli er meðal þess sem nefnt er til skýringar á lágu álverði í nýrri skýrslu IFS Greiningar um hrávörumarkaðinn. Álverð hefur lækkað um 13% frá áramótum og um 54% á síðastliðnum 12 mánuðum.

Kína íhugar innflutningstoll á ál

Kína er stærsti álframleiðandi í heimi með um þriðjung heimsframleiðslunnar og í skýrslunni segir að kínversk stjórnvöld íhugi nú að setja 5% innflutningstoll á ál til að hvetja kínversk fyrirtæki til að kaupa innlenda framleiðslu. Þetta mundi draga enn frekar úr eftirspurn eftir áli á heimsmarkaði.

Erfitt að sjá að hækkanir séu framundan

Kínversk stjórnvöld hafa keypt birgðir af áli frá þarlendum framleiðendum á 1800 dali/tonn, en verðið á heimsmarkaði var 1343 dalir/tonn fyrir helgi. Í skýrslu IFS Greiningar segir að á meðan niðursveifla ríki á heimsmarkaði og stærsti framleiðandi heims greiði yfirverð fyrir sitt ál sé erfitt að sjá miklar hækkanir á heimsmarkaðsverði á næstunni.