Áramót – Tímarit Viðskiptablaðsins komið kom út í gær og er nú aðgengilegt áskrifendum hér á vb.is.

Tímaritið er líkt og fyrri ár veglegt og stútfullt af áhugaverðu efni. Þar má meðal annars finna viðtal við Hilmar Veigar Pétursson, forstjóra CCP en CCP hlaut Viðskiptaverðlaun Viðskiptablaðsins í ár en verðlaunin voru afhent í gær.

Þá má jafnframt finna viðtal við Hermann Kristjánsson, einn stofnanda og aðaleiganda Vöku fiskeldiskerfa sem hlaut Frumkvöðlaverðlaun Viðskiptablaðsins í ár.

Meðal annars efnis má finna viðtal við Ólaf Hjálmarsson, hagstofustjóra, þar sem farið er yfir það agaleysi sem hefur gjarnan ríkt við gerð fjárlaga hér á landi. Hagstofustjóri segist kalla eftir skýrari ábyrgð á stefnu ríkisfjármála enda má lítið út af bregða til að markmið um jöfnuð tekna og útgjalda náist.

Þá rekur Eiríkur Guðnason, fyrrverandi seðlabankastjóri, í ítarlegu viðtali aðdraganda og ástæður hrunsins síðasta haust og hvaða sjónarmið réðu för í Seðlabankanum.  Einnig rekur hann atburðarásina í kringum brottrekstur seðlabankastjóranna síðastliðinn vetur.

Ingjaldur Hannibalsson, prófessor í viðskiptafræðideild Háskóla Íslands, tekur að sér að svara nokkrum lykilspurningum varðandi efnahagsþróunina. Á Ísland að vera með krónuna? Var hrun bankanna óhjákvæmilegt og er efnahagsáætlun Alþjóðagjaldeyrissjóðsins að skila árangri?

Loftur Árnason hefur verið viðloðandi farsælasta verktakafyrirtæki landsins í hátt í fimm áratugi. Hann hættir um áramót og rekur í samtali við Viðskiptablaðið þær breytingar sem hafa orðið á verktakaiðnaðinum sem nú glímir við þá erfiðustu tíma sem yfir greinina hafa dunið.

Steingrímur J. Sigfússon fjármálaráðherra segir að Ísland hafi aldrei verið eins ríkt og menn trúðu sem meðal annars hafi valdið því að hér var haldið uppi falskri afkomu ríkissjóðs á þenslutímum.

Þorsteinn Ingi Sigfússon, forstjóri Nýsköpunarmiðstöðvar Íslands, segir að miðstöðin hafi frá stofnun fyrir tveimur árum orðið að glíma við kreppuástand. Hann vill draga fjárfesta að sprotafyrirtækjum til að auka fjölbreytni í atvinnulífinu.

Hvernig reiddi frægasta fjárfesti allra tíma af í kreppunni? Már Wolfgang Mixa rekur viðbrögð og ráðstafanir Buffetts í bankahruninu og hvernig honum hefur gengið að ávaxta sitt pund. – Eða ættum við að segja dali?

Grasakonan Sóley Elíasdóttir hefur ákveðið að setja leiklistina til hliðar og snúa sér að arfi forfeðranna. Fyrir skömmu hóf hún framleiðslu á græðasmyrslum með aldagamlar uppskriftir í farteskinu.

Þá er loks fjallað um þann fjöldi íslenskra íþróttamanna sem er í víking erlendis og samkvæmt samantekt tímarits Viðskiptablaðsins gera þeir það bara nokkuð gott. Í úttekt blaðsins er í fyrsta skipti reynt að grafast fyrir um árslaun þessara einu sönnu útrásarvíkinga.

Áskrifendur geta nálgast pdf útgáfu af tímaritinu hér.