Einar K. Guðfinsson spurði Árna Pál Árnason efnahags- og viðskiptaráðherra um framtíð sparisjóðanna í utandagskrárumræðu á Alþingi í dag. Hann sagði að sparisjóðirnir hafi farið illa út úr efnahagshruninu. Það sé þó ekki umræðuefni dagsins, heldur framtíð þeirra. Hann sagði heppilegast að stefnumótun sjóðanna fari fram á þeirra eigin vettvangi. Þeir skipti miklu máli og að þekking innan þeirra á landsbyggðinni sé ekki að finna í bönkunum. Einar sagði að þeir njóti trausts í heimabyggðum og vísaði þar í orð seðlabankastjóra.

Sparisjóðirnir búa við nýjan veruleika, sagði Einar K. Til að mynda búa þeir ekki lengur við að hafa Sparisjóðabankann líkt og áður. Leysa þurfi vanda þeirra, ellegar blasi við tómarúm sem viðskiptabankarnir geta ekki fyllt upp í.

Einar K. sagði einnig að það gangi ekki til lengdar að ríkið sé stór eigandi að sparisjóðunum. Það gangi gegn upphaflegri hugmyndafræði sjóðanna. Því eigi stjórnvöld að huga að því að losa stöðu sína úr sjóðunum.

Ríkið leggi ekki til meira fé

Árni Páll sagði að umræða um sparisjóðakerfið fái oft á sig ákveðin helgiblæ. Þeirra starfsemi sé þó afar lík viðskiptabönkunum og í samkeppni við þá. Hann benti á að kjarnastarfsemi var rekin með tapi hjá mörgum þeirra fyrir hrun og að starfsemi þeirra hafi verið meira lík vogunarsjóðum en sparisjóðum. Þá var kostnaðarhlutfall í mörgum tilvikum yfir 100%.

Árni Páll sagði að til þessa þurfi að horfa þegar framtíð sjóðanna er ákvörðuð. Horfa þurfi til landsbyggðarinnar og að fjármálastofnanir geti þjónað almenningi. Það sé þó ekki verkefni sparisjóðanna heldur kerfisins alls.

„Það er ólíklegt að endurreisn sparisjóðanna sé hagkvæmasta leiðin að þessu markmiði,“ sagði Árni Páll. Breytingar eftir hrun feli í sér aukinn kostnað og gerir smærri fjármálafyrirtækjum erfiðara um vik. Hann sagði að fyrir honum sé það grundvallaratriði að ríkið þurfi ekki að leggja sjóðunum til meira fé.

Bankasýslan vinnur að úttekt á sparisjóðakerfinu og sagði Árni Páll að hún verði kynnt í apríl.