Ása Sigríður Þórisdóttir hefur verið ráðin framkvæmdastjóri nýrrar Markaðsstofu Hafnarfjarðar. Ása var valin úr hópi um þrjátíu umsækjenda.

Ása hefur síðastliðin fimm ár verið verkefnastjóri fag- og kynningarmála hjá BHM. Þar áður starfaði hún hjá Höfuðborgarstofu við fjölbreytt verkefni á sviði ferðamála. Ása Sigríður hefur BA próf í stjórnmálafræði frá HÍ.

Ása mun taka við daglegum rekstri Markaðsstofu Hafnarfjarðar frá miðjum febrúar en stofan var formlega stofnuð í haust. Þegar eru fjölbreytt verkefni á borði stofunnar.

Meðal annarra má nefna stefnumótun, aðkomu að eflingu ferðamála í bænum, vinnu við að laða að ný fyrirtæki og ekki síst að aðstoða núverandi fyrirtæki í fjölmörgum verkefnum.

"Við höfum fengið öflugan einstakling til liðs við okkur sem hefur fjölbreytta reynslu á þeim sviðum sem við lögðum áherslu á í ferlinu auk þess sem Ása þekkir vel til Hafnarfjarðar og þeirra möguleika sem bærinn býður upp á" segir Karl Guðmundsson stjórnarformaður Markaðsstofu Hafnarfjarðar.