Það stefnir í mikinn átakafund á aukafundi hluthafa Vinnslustöðvarinnar í Vestmannaeyjum næstkomandi mánudag þar sem andstæðar fylkingar hluthafa láta sverfa til stáls. Það er annars vegar Brim hf., með Guðmund Kristjánsson í broddi fylkingar, sem á rúmlega 30% í Vinnslustöðinni, hins vegar Seil ehf., heimamenn í Eyjum eigendur meirihluta hlutafjár Vinnslustöðvarinnar. Þetta kemur fram á vef Fiskifrétta .

Miklar væringar hafa verið meðal hluthafa Vinnslustöðvarinnar frá árinu 2007. Stríðandi fylkingar voru áður samherjar og keyptu ráðandi hlut í fyrirtækinu af Keri hf. og Samvinnulífeyrissjóðnum í lok árs 2002. Síðar skarst í odda með hluthöfum, annars vegar bræðrunum Guðmundi og Hjálmari Kristjánssonum frá Rifi og hins vegar heimamönnum í Eyjum sem mynduðu félag um liðlega 50% eignarhlut í Vinnslustöðinni og samþykktu í framhaldinu að afskrá félagið í Kauphöll Íslands. Upp úr sauð á árinu 2007 þegar Stilla hf., félag í eigu Guðmundar Kristjánssonar og Hjálmars bróður hans, gerði tilboð í alla hluti í Vinnslu­stöðinni hf. sem voru í eigu annarra hluta­hafa en Stillu ehf. og Vinnslu­stöðvar­inn­ar hf. og var það upphafið að deilum innan hluthafahópsins sem standa enn.

Síðan þá hafa fylkingar tekist harkalega á og nú hafa fulltrúar þeirra beggja lagt fram tillögur fyrir hluthafafundinn á mánudaginn kemur um rannsókn tiltekinna þátta sem varða Vinnslustöðina, Landsbankann og félög í eigu Guðmundar Kristjánssonar.

Nánar má lesa um málið á vef Fiskifrétta.