Í mars lánuðu bankarnir 21,8 ma.kr. í íbúðalánum sem er 1,2 ma.kr. aukning frá því í febrúar og 3,5 mö.kr. meira en í janúar. Íbúðalán bankanna hafa því verið að aukast aftur eftir lækkun í janúar. Samtals hafa bankarnir lánað 180 ma.kr. í íbúðalán frá því í lok ágúst þegar þeir hófu samkeppni við ÍLS og ef fram fer sem horfir munu lán þessi fara yfir 200 ma.kr. markið í þessum mánuði segir í Morgunkorni Íslandsbanka.

Meðalupphæð íbúðalána bankanna var 10,9 m.kr. í mars sem er óveruleg breyting frá því í febrúar. Þetta er nokkuð hærra en meðallán Íbúðalánasjóðs sem er um 8 m.kr. Meðalupphæð þinglýsta kaupsamninga nam 20,5 m.kr. á fyrsta ársfjórðungi og því ljóst að skuldsetning var undir 50% að meðaltali sem er ekki hátt.

Markaðshlutdeild bankanna í íbúðalánum var á bilinu 88-89% á 4F 2004 en síðan þá hefur markaðshlutdeild ÍLS verið að aukast og var markaðhlutdeild bankanna 76% í mars. Ný íbúðalán lífeyrissjóða eru ekki gefin upp en útistandandi lán þeirra höfði einungis aukist um 400 m.kr. fyrstu tvo mánuði ársins og er þeirra markaðshlutdeild því mjög lítil segir í Morgunkorni Íslandsbanka.