Neytendur í Bandaríkjunum eru meðvitaðri um neyslu sína núna en nokkru sinni fyrr, og ekki er búist við miklum viðbrögðum frá þeim þrátt fyrir miklar útsölur eftir hátíðina. Bloomberg fréttaveitan greinir frá þessu.

Neytendur vestra hafa nú fært sig úr neyslu í sparnað að sögn sérfræðings sem Bloomberg ræðir við.

Útsölur eru farnar í gang í Bandaríkjunum en verslunarkeðjan Macy's hefur til dæmis lækkað verð á 14 karata demantseyrnalokkum um 64%. Verðlækkanir Macy's og annarra verslunarkeðja koma í kjölfar þess að alþjóðleg samtök verslunarmiðstöðva gera ráð fyrir að samdráttur í jólasölu hafi verið meiri í ár en síðustu fjóra áratugi.

Smásöluverslanir í Bandaríkjunum treysta á að einn þriðji af árssölunni eigi sér stað yfir hátíðarnar, en standa nú frammi fyrir erfiðum aðstæðum vegna mikils samdráttar í eftirspurn vegna efnahagsástandsins.