Verðbréfaeftirlit Bandaríkjanna, S.E.C., samþykkti í dag að skylda flest bandarísk fyrirtæki sem skráð eru á hlutabréfamarkað til þess að upplýsa um það hver laun forstjóra eru sem hlutfall af meðallaunum innan fyrirtækisins. Reglan á uppruna sinn að rekja til Dodd-Frank lagasetningarinnar árið 2010, en í henni fólst mikil uppstokkun á eftirliti með bandaríska fjármálamarkaðnum. Fyrirtækjum verður gefið talsvert svigrúm í því hvernig launabilið er reiknað út.

Washington Post greinir frá þessu. Þar segir að upplýsingarnar sem um ræður gætu verið innlegg í umræðuna um ójöfnuð í Bandaríkjunum, sem hefur verið nokkuð hávær undanfarið. Meintur tilgangur reglunnar er sá að auðvelda fjárfestum að bera saman launakostnað forstjóra hjá mismunandi fyrirtækjum, til dæmis innan sama geira.

Stjórn S.E.C. samþykkti regluna með þremur atkvæðum gegn tveimur. Demókratarnir í nefndinni greiddu atkvæði með reglubreytingunni auk stjórnarformannsins Mary Jo White, en repúblikarnir tveir greiddu atkvæði gegn reglunni.

White fagnaði reglusetningunni og sagði hana vera í anda Dodd-Frank löggjafarinnar. Fulltrúar verkalýðsfélaga hafa hins vegar gagnrýnt endanlega útgáfu reglunnar á þeirri forsendu að hún gangi ekki nógu langt.