Breska fjármálaeftirlitið hefur sektað Barclays banka um 7,7 milljónir punda, jafnvirði um 1,5 milljarða króna, fyrir léleg fjárfestingaráð sem bankinn veitti einstaklingum. Bankinn aðstoðaði þúsundir eftirlaunaþegar við að fjárfesta sparnaði sínum. Að auki er bankanum gert að greiða einstaklingunum skaðabætur, alls 60 milljónir punda eða rúmlega 11 milljarða króna.

Á vef BBC kemur fram að einn af hverjum sjö kvartaði undan ráðleggingum bankans á tímabilinu frá júlí 2007 til nóvember 2008. Alls voru fjárfestarnir um tólf þúsund en 1730 kvartanir bárust.

Barclays féllst á að hafa brugðist viðskiptavinum og baðst afsökunar. Bankinn er sektaður vegna tveggja sjóða, the Balanced Fund og the Cautious fund , sem bankinn starfrækti. Rúmlega tólf þúsund einstaklingar fjárfestu í sjóðunum fyrir alls 692 milljónir punda. Margir fjárfestanna voru eftirlaunaþegar eða nærri því að hætta störfum.

Einstaklingunum var talin trú um að fjárfestingar sjóðanna væru varkárar og henti þeim sem vilja taka litla áhættu. Þegar efnahagskreppan skall á töpuðu sjóðirnir hinsvegar miklu og ljóst að áhætta þeirra var meiri en bankinn sagði.