Gengið hefur verið frá kaupum Baugs Group á 20% hlut í Þætti eignarhaldsfélagi ehf. Í tilkynningu Milestone kemur fram að kaupverðið, sem verður í formi hlutafjáraukningar, verður greitt í reiðufé og hlutabréfum í Íslandsbanka hf. Þáttur, sem áður var að fullu í eigu Milestone ehf., tekur um leið yfir rúmlega 16,4% eignarhlut Milestone í Íslandsbanka og ríflega 66% hlut í Sjóvá.

Eigið fé í Þætti ehf. mun nema ríflega 25,7 milljörðum króna og verður sterkur efnahagur félagsins nýttur til frekari fjárfestinga bæði hérlendis og erlendis segir í tilkynningunni.

Milestone ehf., mun eftir viðskiptin eiga 80% eignarhlut í Þætti ehf. og verður Karl Wernersson áfram stjórnarformaður félagsins. Eftir kaupin verður Þáttur ehf. og fjárhagslega tengdir aðilar eigandi tæplega 20% hlutafjár í Íslandsbanka.

?Það er ljóst að með þessum samningum eru stoðir Íslandsbanka og Sjóvá styrktar enn frekar. Við erum að fá inn öfluga aðila við hlið okkar í Þátt. Í þessum breytingum felast því mikil tækifæri til aukinnar verðmætasköpunar í Sjóvá og Íslandsbanka," segir Karl Wernersson stjórnarformaður Þáttar og Milestone. ?Þessi sterki eignarhlutur í Íslandsbanka mun efla bæði innri og ytri vöxt hans á næstu árum."

Framangreind viðskipti eru gerð með fyrirvara um samþykki Fjármálaeftirlitsins um meðferð á virkum eignarhlut í Íslandsbanka og Sjóvá.

Framkvæmdastjóri Þáttar ehf. er Guðmundur Ólason.