Þorsteinn Baldur Friðriksson, framkvæmdastjóri og stofnandi tölvuleikjaframleiðlandans Plain Vanilla, rifjar í viðtali við Viðskiptablaðið upp nokkuð skondið atvik sem átti sér stað þegar verið var að vinna í því að fá fundi með mögulegum fjárfestum í Bandaríkjunum í fyrra.

Þorsteinn Baldur er í ítarlegu viðtali í Viðskiptablaðinu sem kom út í gær. Þar er meðal annars fjallað um það hvernig félagið stóð fyrir rúmi ári frammi fyrir því að annað hvort hætta rekstri eða sækja sér fjármagn erlendis frá til að þróa ný verkefni. Áður hafði Plain Vanilla gefið út barnatölvuleikinn The Moogies sem var hálfgert flopp, svo vitnað sé til orða Þorsteins, þar sem hann skilaði félaginu ekki þeim tekjum sem gert hafði verið ráð fyrir.

Sagan sem hér fer eftir rataði því miður ekki í prentútgáfu blaðsins í gær en verður þess í stað birt hér í heild sinni.

Þegar hér kemur við sögu hafði Þorsteinn ásamt tveimur samstarfsmönnum sínum dvalið í San Francisco í nokkrar vikur og reynt að ná fundum með fjárfestum án árangurs.

En þeir gáfust þó ekki upp og lögðu sig fram um að fá fundi með væntanlegum fjárfestum í félaginu. Til þess þurfti að beita nokkrum brögðum og þar naut hann liðsinnis Davíðs Helgasonar, forstjóra og stofnanda Unity Technologies, sem búsettur er í San Francisco (og var í viðtali hér í Viðskiptablaðinu í janúar sl.) en hann hafði sjálfur gengið þennan þrönga veg áður.

„Davíð þekkir marga sem eru að fjárfesta í svona verkefnum og bauðst til að reyna að hafa milligöngu um að fá fund fyrir okkur,“ rifjar Þorsteinn upp.

„Að lokum bað hann mig um að koma og hitta sig eitt föstudagseftirmiðdegi. Hann var búinn að segja mér fá fjárfestingasjóð, Sequoia Capital, sem hafði fjárfest í mörgum svona verkefnum og að ég gæti hitt einn af framkvæmdastjórum sjóðsins á fundi hjá sér. Ég byrjaði að undirbúa flotta kynningu, keypti mér nýja skyrtu og ætlaði mér að vera með fyrirmyndar kynningu á þessu verkefni okkar.“

Þorsteinn mætti til Davíðs kl. 16 á föstudegi og settist með honum inn í fundarherbergi á skrifstofu Unity. Von var á manninum frá Sequoia um kl. 17 sama dag.

„Ég spurði Davíð hvernig væri best að byrja svona fund og þá sagði hann mér að hann væri ekkert búinn að bóka fund með okkur saman. Ég varð auðvitað mjög stressaður og spurði hvers vegna hann hefði þá verið að boða mig til sín,“ segir Þorsteinn .

„Þá var þetta útpælt hjá honum. Hann sagði mér að þegar maðurinn kæmi ættum við að þykjast vera að klára fund til að fara yfir eitthvað spennandi verkefni. Hann myndi síðan kynna mig fyrir honum og nefna i framhjáhlaupi þetta verkefni okkar – og það væri þá tækifærið mitt til að koma þessu að. Ég átti s.s. að smygla mola um fyrirtækið á leiðinni út af þykjustufundi með Davíð.“

Þorsteinn hlær þegar hann rifjar þetta upp og stendur upp til að leggja áherslu á mál sitt og skýra söguna betur með leikrænum tilburðum.

„Þessi ágæti maður frá Sequoia Capital, mætti tímanlega á fundinn og var mjög alvarlegur. Við stöndum upp og hann heilsar Davíð. Mér fannst hann strax líta á mig einhverju hornauga en þegar ég er við það að byrja að labba út segir Davíð að við höfum verið að funda og ýjar að því að hann þurfi að heyra um hugmynd mína,“ segir Þorsteinn .

„Maðurinn var strax mjög skeptískur og þetta og spurði Davíð hvort að þetta hefði verði raunverlega ástæðan fyrir því að hann hefði beðið hann um að hitta sig. Mér fannst ég heyra nokkurn pirring í röddinni hans. Davíð varð sjálfur nokkur stressaður yfir þessum viðbrögðum en ég fékk engu að síður að sýna honum efnið sem ég var með. Nema hvað, að þegar ég hafði komið inn hafði ég lagt jakkann minn á gólfið við hliðina á stólnum og hann hafði greinilega meiri áhuga á því heldur en því sem ég var að segja. Hann spurði hver ætti þennan jakka á gólfinu. Ég sagðist eiga jakkann og hann sagði í alvarlegum tón að svona færi maður ekki með fötin sín. Þetta var vægast sagt hræðileg byrjun á þeim mikilvægasta fundi sem ég hafði fengið á þeim tíma sem við höfðum verið þarna.“

Þessi fundur átti þó eftir að marka tímamót fyrir Plain Vanilla. Þessi umræddi maður hringdi í Þorstein daginn eftir og bauð honum að kynna verkefnið fyrir eigendum sjóðsins á vikulegum fundi þeirra strax á mánudeginum. Sú kynning gekk öllu betur. Sequoia fjárefsti þó ekki í fyrirtækinu (þar sem sjóðurinn fjárfestir í lengra komnum verkefnum) en fyrrnefndur maður hafði þó milligöngu um að útvega Þorsteini i fundi með aðilum sem voru að fjárfesta í sambærilegum verkefnum.

„Það var meiri vigt í því heldur en okkur sem vorum að biðja sjálfir um fundi,“ segir Þorsteinn .

„Þeir hafa síðan þá hjálpað okkur mikið og hann fyrirgaf okkur Davíð þennan leik okkar mjög fljótt.“

---

Þorsteinn Baldur er sem fyrr segir í ítarlegu viðtali í nýjasta tölublaði Viðskiptablaðsins. Þar fer hann yfir atburðarásina frá því að félagið var stofnað í lok árs 2010, hvernig því tókst að rífa sig upp úr vonlausri stöðu og ná í erlent fjármagn til að þróa næsta verkefni; hvernig Þorsteinn sér mögulega framtíð Plain Vanilla fyrir sér og margt fleira. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir liðnum tölublöð hér að ofan.