Hagstæðara getur verið að kaupa fasteignir óháð stærð þeirra fremur en að leigja á höfuðborgarsvæðinu. Máli skiptir hvort til stendur að eiga fasteignina í langan tíma eður ei.

Greiningardeild Arion banka veltir málinu fyrir sér í Markaðspunktum dagsins. Í Markaðspunktunum segir að gagnsemi hlutfalls kaupverðs og leiguverðs einskorðist ekki við að meta verðlagningu fasteigna heldur geti það einnig gefið vísbendingar um hvort heppilegra sé, í fjárhagslegum skilningi, að kaupa eða leigja húsnæði.

Greiningardeildin segir:

„Almennt er talið að fari hlutfallið undir 15 sé hagstæðara að kaupa húsnæði en fari það yfir 20 sé hagstæðara að leigja. Lendi hlutfallið á milli 15 og 20 hefur áætlaður eignartími úrslitaatkvæðið, þ.e. ef til stendur að eiga fasteigninga til lengri tíma er hagstæðara að kaupa hana en annars ekki. Hér á eftir er hlutfall kaupverðs og leiguverðs byggt á kaupverði á fermetra og árlegu leiguverði á fermetra, en ekki á vísitölum líkt og gert var að ofan, sem útskýrir muninn á hlutföllunum.“

Betra að kaupa en leigja

Greiningardeildin skoðar m.a. smærri íbúðir á höfuðborgarsvæðinu, þ.e. stúdíó íbúðir og tveggja herbergja íbúðir. Þar kemur í ljós að samkvæmt hlutfalli kaupverðs og leiguverðs er alltaf hagstæðara að kaupa fasteign fremur en að leigja, óháð staðsetningu. Í báðum tilvikum er hlutfallið lægst í Breiðholtinu en það má fyrst og fremst rekja til lægra kaupverðs en annars staðar. Þannig er kaupverð tveggja herbergja íbúðar í Breiðholtinu 15% lægra en í Grafarvogi og Árbæ en leigan aðeins 6% lægri. Í Kópavogi er hlutfall kaupverðs og leiguverðs hæst en þar eru smærri íbúðir dýrari en gengur og gerist annars staðar, að undanskildum miðbæ Reykjavíkur, en leigan samt sem áður lág. Við ítrekum þó að um mikla einföldun er að ræða, til að mynda er ekki tekið tillit til þess kostnaðar er fellur til við að reka fasteign og því óráðlegt að rjúka upp til handa og fóta og fjárfesta í fasteign í Breiðholtinu eða skrifa undir leigusamning í Kópavogi.

Hlutfall kaupverðs og leiguverðs hækkar hins vegar á stærri eignum. Sömu þróun er jafnframt að finna á öllum svæðum. Svo  virðist sem leiguverð á fermetra lækki hraðar heldur en kaupverð á fermetra eftir því sem fasteign stækkar. Stærstu eignirnar eru þær einu sem eru einhverjum vafa undirorpnar þegar kemur að því hvort hagstæðara sé að kaupa eða leigja, en í Kópavogi, Garðabæ og Hafnafirði fer hlutfallið yfir 15. Þar myndi því áætlaður eignartími leggja grundvöllinn að ákvörðun, að sögn greiningardeildar Arion banka.