*

miðvikudagur, 28. júlí 2021
Erlent 20. nóvember 2020 08:15

Biden vinnur endurtalningu í Georgíu

Biden eru nú tryggðir 16 kjörmenn Georgíu-fylkis eftir endurtalningu og frávísun síðasta dómsmálsins þar.

Ritstjórn
Joe Biden hefur hlotið tæplega 6 milljón fleiri atkvæði en Trump á landsvísu.
epa

Sigur Joe Biden forsetaframbjóðanda og verðandi forseta í nýafstöðnum forsetakosningum Bandaríkjanna í Georgíu-fylki hefur verið staðfestur eftir endurtalningu atkvæða. BBC segir frá.

Biden vann fylkið með 12.284 atkvæðum, og mun því hljóta atkvæði þeirra 16 kjörmanna sem kjósa munu fyrir hönd fylkisins þann 14. desember næstkomandi, þegar 538 kjörmenn allra fylkja auk Washington DC hittast og kjósa forsetann formlega.

Biden hefur verið spáð 306 kjörmönnum á móti 232 fyrir sitjandi forseta, Donald Trump, miðað við fyrirliggjandi niðurstöður kosninga hvers fylkis, en Trump og stuðningsmenn hans hafa haft uppi ásakanir um kosningasvik og höfðað fjölda dómsmála til að freista þess að fá niðurstöðunni hnekkt.

Hingað til hefur þeim þó orðið lítið ágengt, og flestum slíkum dómsmálum verið vísað frá, nú síðast þremur málum í gær, þar á meðal síðastas dómsmálinu í Georgíu-fylki.

Biden var harðorður í garð forsetans fráfarandi og sagðist fullviss um að hann vissi mætavel að dagar hans í embætti væru taldir, og hefði sýnt af sér „ótrúlegt ábyrgðarleysi“ með því að neita af viðurkenna niðurstöðurnar. Á meðan getur viðtökuferli Biden og ríkisstjórnar hans ekki hafist.

Biden hefur þegar hlotið rétt tæp 80 milljón atkvæði, flest í sögu nokkurs forsetaframbjóðanda, en enn stendur yfir talning í Kaliforníu- og New York-fylkjum. Alls kusu um 155 milljón manns sem gerir 65% kjörsókn, þá mestu í yfir 100 ár.

Stikkorð: Donald Trump Joe Biden