Sunday Times birtir á vef sínum í dag grein undir fyrirsögninni „Kostnaðarsamt fyrir birgja að treysta Baugi.“

Í greininni er rakin saga fataframleiðanda sem kallaður er dulnefninu Robert og segir farir sínar ekki sléttar. Robert stóð í viðskiptum við MK One (sem Baugur keypti árið 2004 og seldi fyrr í þessum mánuði) og átti í vandræðum með að innheimta kröfu sem hann átti á fyrirtækið.

„Ég hef verið í þessum bransa í fjölda ára og lent í ýmsu“ hefur Sunday Times eftir Robert. „Það sem ég taldi vera öðruvísi í þessu tilfelli er að jafnvel þó svo að það væri augljóst frá því í haust að MK One var að panta vörur sem það hafði ekki efni á að borga fyrir, töldum við að með bakhjarl á borð við Baug myndum við fá skuldir okkar greiddar.“

Sunday Times segist hafa hitt fjóra forstjóra framleiðslufyrirtækja sem sáu MK One fyrir fatabirgðum og þeir hafi sagt að skuld MK One við þá næmi samtals 622 þúsund pundum. Fyrirtæki þeirra séu nú í fjárhagsvandræðum og óhjákvæmileg afleiðing þess sé að störf glatist. Þeir segja að ef MK One hefði ekki haft Baug á bak við sig hefðu þeir ekki skuldsett fyrirtæki sín jafn mikið og þeir gerðu.

Í frétt Sunday Times segir að talsmaður Baugs hafi ekki viljað tjá sig um kvartanir birgjanna, þar sem Baugur hafi nú selt MK One telji hann það óviðeigandi. Morgunblaðið hefur hins vegar eftir Gunnari Sigurðssyni, forstjóra Baugs Group, að Baugur hafi ekki komið nálægt samskiptum stjórnenda MK One við birgja og að Baugur skipti sér ekki af daglegum rekstri fyrirtækja sem Baugur á hlut í. Það sé út í hött að halda því fram að birgjar hafi getað vænst þess að Baugur myndi ábyrgjast skuldir MK One.

Grein Sunday Times.