Á aðalfundi Margmiðlunar hf. í vikunni urðu þær breytingar að í stað Aðalsteins Jóhanssonar (fulltrúa Brúar í stjórn) kom inn í stjórn Bjarni K. Þorvarðarson (fyrir hönd CVC). Að öðru leyti er stjórn félagsins óbreytt. Einnig voru gerðar þær breytingar á samþykktum félagsins að nú hefur stjórn forkaupsrétt á seld hlutabréf. Árið 2003 voru rekstartekjur Margmiðlunar 184 milljónir kr. og er það hækkun borið saman við 2002. Rekstargjöld lækkuðu alls um 7% og var hagnaður af rekstrinum upp á tvær milljónir kr.

Þó að hagnaðartölur ársins séu vissulega ekki háar benda forráðamenn félagsins á í Viðskiptablaðinu í dag að viðsnúningurinn frá árinu 2002 sé mikill. Á síðasta ári lagði félagið út í miklar fjárfestingar og kostnað við uppbyggingu kerfa og þekkingar til þess að gera mögulegt að stíga næstu skref í þá átt að gera Margmiðlun að alhliða fjarskiptafélagi. Tekjur á móti þeim kostnaði voru hins vegar mjög litlar 2003 þar sem almenn markaðssetning á þjónustunni hófst ekki fyrr en 2004. Með þetta í huga er rekstarárangur ársins enn ánægjulegri segir í tilkynningu frá félaginu.

Áður hefur komið fram í tilkynningu frá félaginu að gert er ráð fyrir góðum hagnaði á þessu ári og að sögn forráðamanna félagsins eru þeir á undan áætlun á flestum sviðum.