Seðlabanki Íslands er reiðubúinn til að selja gjaldeyri fyrir andvirði allt að 40 milljarða króna í reglulegum viðskiptum við viðskiptavaka á gjaldeyrismarkaði til loka þessa árs. Salan mun ekki hafa áhrif á inngripastefnu bankans í markaðinn til að draga úr sveiflum. Þetta kemur fram í tilkynningu frá bankanum.

Regluleg sala bankans á gjaldeyri á innlendum gjaldeyrismarkaði mun hefjast næstkomandi mánudag. Í tilkynningunni kemur fram að markmiðið sé að auka dýpt markaðarins og bæta verðmyndun.

„Innlendur gjaldeyrismarkaður hefur ekki farið varhluta af áhrifum COVID-19-farsóttarinnar. Mjög hefur dregið úr veltu og verðmyndun hefur verið óskilvirk. Að mati bankans er um tímabundna erfiðleika að ræða og má gera ráð fyrir að markaðurinn færist í eðlilegra horf á ný þegar áhrif farsóttarinnar dvína,“ segir í tilkynningunni.

Frá næsta mánudegi og til loka mánaðar mun bankinn selja viðskiptavökum 3 milljónir evra hvern viðskiptadag fljótlega eftir opnun markaða og í síðasta lagi klukkan 10 árdegis. Í lok hvers mánaðar mun bankinn tilkynna um fjárhæð og ætlaða viðskiptadaga gjaldeyris í komandi mánuði. Alls er bankinn reiðubúinn til að selja 240 milljónir evra, andvirði 40 milljarða króna, til áramóta.

„Seðlabankinn áskilur sér því fullan sveigjanleika til að aðlaga fjárhæð, tíðni og framkvæmd sölunnar til að tryggja skilvirkni aðgerðarinnar. […] Gjaldeyrisforði bankans nam 973 ma.kr. í lok ágúst 2020. Þar af nam hrein gjaldeyriseign 730 ma.kr. Fjárhæðin sem bankinn er reiðubúinn að selja það sem eftir lifir ársins er nú um 4% af gjaldeyrisforðanum og um 5½% af hreinni gjaldeyriseign bankans,“ segir í tilkynningunni.