Ekki hefur verið gengið formlega frá myndun bráðabirgðastjórnar Samfylkingar, Vinstri grænna og Framsóknarflokksins eftir því sem Viðskiptablaðið kemst næst en á hinn bóginn hefur myndun slíkrar stjórnar verið rædd síðustu daga í óformlegum viðræðum, eins og það er kallað, milli forystumanna flokkanna.

Bráðabirgðastjórn liggur því í loftinu.

Niðurstaðan ræðst þó ekki fyrr en þingflokkar Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar hafa ráðið ráðum sínum við sína forystumenn. Þeir hafa fundar frá því kl. 10 í morgun.

Meðal þeirra hugmynda sem ræddar hafa verið milli flokkanna þriggja er að Ingibjörg Sólrún Gísladóttir verður forsætisráðherra og Steingrímur J. Sigfússon verði fjármálaráðherra.

Ekki er endilega víst að IMF-láninu verði skilað, eins og Steingrímur, nefndi í Kastljósviðtali nýverið heldur er líklegra að samkomulag verði um að það verði skoðað frekar hvort nauðsynlegt sé að taka það allt - samfara heildarskoðun á skuldastöðu Íslendinga.

Í þeim þreifingum sem átt hafa sér stað um bráðabirgðastjórn síðustu daga hefur meldingum verið komið til Frjálslynda flokksins en óvíst er um aðkomu þeirra- verði bráðabirgðastjórn að veruleika.