Breti, sem nýlega var dæmdur í níu ára fangelsi fyrir fjársvik, sat í stjórn verðbréfafyrirtækis á Íslandi árið 2003. Íslenska Fjármálaeftirlitið kom rannsókn breska fjármálaeftirlitsins (FSA) með því að leggja fram skriflegan vitnisburð um umsókn bresks fyrirtækis í eigu Bretans um að fara með virkan eignarhlut í íslensku verðbréfafyrirtæki árið 2003. FME hafði verið í samskiptum við FSA í tengslum við umsóknina og hafnaði síðan umsókn Bretans. Sagði hann sig í kjölfarið úr stjórn verðbréfafyrirtækisins. Þetta kemur fram á heimasíðu FME.

Bretinn sem dæmdur var heitir Tomas Wilmot og voru tveir synir hans dæmdir meðsekir og hlutu báðir fimm ára fangelsisdóm. Faðirinn hlaut níu ára fangelsi. Skipulögðu feðgarnir og stjórnuðu svokölluðum kyndiklefum eða Boiler Room þar sem fjárfestum eru seld verðlítil/verðlaus verðbréf eða verðbréf í fyrirtækjum sem hreinlega eru ekki til. Kyndiklefarnir voru sextán talsins og seldu hlutabréf til 1.700 breskra fjárfesta frá 2003 til 2008. Voru 27,5 milljónir sterlingspunda lagðar inn á breska bankareikninga í þessum viðskiptum og hluti þeirra flutt áfram á aflandsreikninga.

Rannsókn FSA hófst formlega í júlí 2008 og í maí 2009 var gerð húsleit hjá meintum vitorðsmönnum í fjársvikunum. Haft er eftir Tracey McDermott, sem er framkvæmdastjóri á sviði viðurlagamála hjá FSA, að þessir dómar séu mikilvægir. Þeir marki nýjan sigur í hinni stöðugu baráttu gegn kyndiklefasvikum.

Í mynd sem heitir Boiler Room og kom út árið 2000 er teiknuð upp atburðarrás að hætti Hollywood hvernig kyndiklefasvikin fara fram. Hér að neðan má sjá myndbrot úr myndinni.