Tveir hópar breskra kvenna hafa unnið mál fyrir enskum áfrýjunardómstól. Í dómnum kemur fram að launamismunun sem byggist á kyni launþegans er ólögleg, sama í hvaða mynd hún er. Dómurinn er stefnumarkandi og gæti rutt leiðina fyrir fjölda annarra kvenna sem leita vilja réttar síns, samkvæmt frétt BBC.

Konurnar sem höfðuðu málið starfa við ræstingar í skólum og við gangbrautavörslu við grunnskóla. Málið var höfðað á hendur borgarráðum Middlesbrough og Redcar & Cleveland.

Árið 1997 samþykktu fyrrnefnd borgaryfirvöld reglur sem tryggja áttu konum laun til jafns við karla.

Í kjölfarið var sú leið víða farin að lækka laun karla í stað þess að hækka laun kvenna. Karlarnir nutu hins vegar launaverndar til að gefa þeim tíma til að aðlaga sig að minni tekjum, þannig að launin þeirra lækka í þrepum. Vegna þessa er launamismunur staðreynd í nokkur ár í viðbót eftir að launalækkanir hafa verið samþykktar, en slíkt var að mati breskra dómstóla ólögmætt og brot á jafnrétti.