Alvogen gerði formlegt tilboð í verksmiðju Actavis á Íslandi fyrir um tveimur vikum og hljóðaði tilboðið upp á um fjóra og hálfan milljarð króna, samkvæmt heimildum Fréttablaðsins .

Actavis tilkynnti á mánudaginn að verksmiðjunni yrði lokað árið 2017 og að 300 störf myndu tapast.

Róbert Wessman, forstjóri Alvovegn og fyrrverandi forstjóri Actavis, staðfestir við Fréttablaðið að tilboð í verksmiðjuna og sölustarfsemi Actavis hér á landi hafi verið lagt fram. „Við höfum lýst yfir áhuga á því að kaupa verksmiðjuna í Hafnarfirði en því miður hafa ekki náðst samningar.“ Hann segist ennþá hafa áhuga á kaupunum, en nauðsynlegt sé að einhver framleiðsla fylgi með í þeim kaupum. „Við höfðum hugsað okkur að íslenski markaðurinn fylgdi með.“