Byggingarsvæði stækkuðu um 1055% á árunum 2000 til 2006 og jöklar minnkuðu um 1,63%. Þetta er meðal þess sem lesa má út úr upplýsingum sem Landmælingar hafa tekið saman um yfirborð og landgerðir á Íslandi. Gögnin verða nýtt til þess að fylgjast með breytingum á landnotkun auk þess sem þau nýtast m.a. sem grundvöllur að umhverfisstjórnun segir í tilkynningu.

Verkefnið sem nefnist CORINE (Coordination of Land Information on the Environment) var unnið í samvinnu við sveitarfélög landsins og fjölda íslenskra stofnana.

Niðurstöður verkefnisins verða kynntar á fréttamannafundi umhverfisráðuneytisins og Landmælinga í umhverfisráðuneytinu á morgun kl. 15:00. Svandís Svavarsdóttir umhverfisráðherra og starfsfólk Landmælinga munu kynna verkefnið og niðurstöður þess. Niðurstöðurnar verða birtar í sérstakri skýrslu og á vefsjá Landmælinga sem verður opnuð á morgun. Gert er ráð fyrir að kynningin taki 20 til 30 mínútur.