*

laugardagur, 4. desember 2021
Innlent 21. apríl 2020 14:28

Dagar semja við Opin kerfi

Opin Kerfi sjá um tölvu- og upplýsingakerfi fyrir Daga, sem veitir starfsmönnum þess aðgang að kennsluefni hvar sem er.

Ritstjórn
Ólafur Örn Nielsen, aðstoðarforstjóri Opinna Kerfa, Pálmar Óli Magnússon, forstjóri Daga, Björk Baldvinsdóttir, sviðsstjóri sölu og viðskiptaþróunar Daga og Tryggvi Þorsteinsson, sölustjóri hýsingar- og rekstrarþjónustu Opinna Kerfa.
Aðsend mynd

Dagar hafa samið við Opin Kerfi um þjónustu og rekstur á tölvu- og upplýsingakerfum fyrirtækisins. Markmið samstarfsins er að auka skilvirkni og hagkvæmni í rekstri. Dagar munu nýta skýjalausnir Opinna Kerfa sem gerir starfsmönnum fyrirtækisins kleift að sinna starfi sínu óháð staðsetningu og hafa aðgang að öllum nauðsynlegum upplýsingum.

Notendur tengjast í gegnum kerfi Opinna Kerfa og tryggja þannig öryggi og aðgengi að gögnum. Öll miðlæg upplýsingakerfi Daga verða í umsjón Opinna Kerfa sem felur í sér daglegan rekstur, vöktun og þjónustu við notendur.

Þjónustufyrirtækið Dagar sérhæfir sig í fasteignaumsjón og ræstingu hjá fyrirtækjum og stofnunum. Mikil áhersla er lögð á starfsmannamál innan Daga og því nauðsynlegt að geta miðlað og deilt upplýsingum, kennsluefni og tæknilausnum með skilvirkum hætti milli starfsmanna.

Sem dæmi má nefna að kennsluefni sem áður var aðeins aðgengilegt á starfsstöðvum Daga hefur nú verið sett upp í skýjalausnum Opinna Kerfa og er þar með aðgengilegt starfsmönnum Daga hvar og hvenær sem er. Dagar eru með starfsemi á yfir 20 stöðum á landinu. Hjá fyrirtækinu starfa 800 starfsmenn sem þjónusta 800 þúsund fermetra hjá yfir 600 viðskiptavinum.

Ólafur Örn Nielsen, aðstoðarforstjóri Opinna Kerfa segir starfsemi Daga gífurlega umfangsmikla og því nauðsynlegt fyrir fyrirtækið að geta treyst á nútímalegt og öruggt tækniumhverfi.

„Sífellt fleiri fyrirtæki kjósa að úthýsa upplýsingatæknirekstri sínum með skilvirkni og hagkvæmni að leiðarljósi. Með nútímalegum skýjalausnum geta upplýsingakerfin lagast að þörfum hvers tíma og einungis er greitt fyrir þá þjónustu sem er nýtt. Við þökkum fyrir það traust sem okkur er sýnt með rekstri og umsjón svo viðamikilla upplýsingakerfa sem Dagar þurfa á að halda,“ segir Ólafur Örn.

Pálmar Óli Magnússon, forstjóri Daga segir félagið leggja áherslu á tækni og framþróun og að vinnustaðurinn sé aðlaðandi og gefandi.

„Þess vegna er nauðsynlegt fyrir okkur að bjóða upp á þær tæknilausnir sem til þarf, bæði til að miðla upplýsingum til starfsmanna sem og þeirra fyrirtækja sem við þjónustum. Síðustu daga og vikur hefur sýnt sig hversu mikilvægt það er að hafa aðgang að skýjalausnum og öðrum framsæknum tæknilausnum á borð við þær sem Opin Kerfi bjóða upp á,” segir Pálmar Óli.