Ítalskur dómstóll hefur mildað dóm yfir forsætisráðherranum fyrrverandi, Silvio Berlusconi, en fyrr í dag var hann dæmdur í fjögurra ára fangelsi. Ítölsk lög heimila það að fangelsisrefsing sé stytt til að koma í veg fyrir það að fangelsi landsins yfirfyllist.

Berlusconi var ásamt öðrum ákærður fyrir að hafa keypt sýningarrétt á bandarískum kvikmyndum á uppsprengdu verði og hafa dregið sér hluta af hinu meinta kaupverði. Með því hafi hann lækkað skattaskuldbindingu sína. Berlusconi og aðrir sem voru dæmdir í dag þurfa að greiða 10 milljónir evra í sekt og þá má hann ekki gegna opinberu embætti í þrjú ár. Berlusconi mun ekki hefja fangelsisvistina fyrr en dómurinn hefur verið staðfestur af æðra dómsstigi.