Icelandic Group hefur ákveðið að sameina þrjú bresk dótturfélög, Seachill, Coldwater og Icelandic UK. Eftir sameininguna verða félögin þrjú undir einni og sömu stjórn og standa vonir til að fyrir vikið verði sameinað félag betur statt til að styrkja stöðu sína á breska markaðnum.

Félögin öll eru öll staðsett í Grimsby og samkvæmt frétt Fish Information and Services nemur velta bresku dótturfélaganna samanlagt um 300 milljónum punda, andvirði um 55 milljarða króna. Eftir sameininguna verður til næst stærsta fiskframleiðslufyrirtæki í Bretlandi á eftir Young's, sem er með veltu upp á um 600 milljónir punda.

Nýja fyrirtækið mun fá nafnið IGUK og Malcolm Eley, sem verið hefur forstjóri Seachill, verður forstjóri nýja fyrirtækisins. Markaðshlutdeild IGUK í Bretlandi verður um 20%.