Tap deCODE á þriðja ársfjórðungi var 11,4 milljónir dollara eða 692 milljónir króna samanborið við 12,5 milljón dollara (759 m.kr) tap á sama fjórðungi í fyrra. Tekjur námu 13,2 milljónum dollara og jukust um 20% frá sama tímabili í fyrra. Frestaðar tekjur vegna rannsókna nema 13,1 milljónum dollara og munu þær verða færðar til tekna á komandi fjórðungum.

deCODE lagði áfram áherslu á lyfjaþróun og hefur einbeitt sér að lyfjaprófunum á fjórðungnum segir í Morgunkorni Íslandsbanka. Kostnaður við þróun og rannsóknir nam 11 milljónum dollara á þriðja fjórðungi og nemur því 30,1 milljónum dollara á fyrstu níu mánuðum ársins samanborið við 16 milljónir dollara á sama tímabili í fyrra. Kostnaður við lyfjaþróun eykst því verulega og kemur aukningin helst til vegna klínískra prófana en unnið var að því að færa helstu lyfjaþróunarverkefni félagsins á næstu stig. Heildarskuldir félagsins nema 214 milljónum dollara en eigið fé er 10,8 m.USD og eiginfjárhlutfall því einungis rétt undir 5% segir í Morgunkorni Íslandsbanka. Handbært fé í lok þriðja ársfjórðungs nam 171 m.USD en til samanburðar nam tap fyrstu níu mánaða ársins um fjórðungi af þeirri fjárhæð.

Byggt á Morgunkorni Íslandsbanka.