Edda Rós Karlsdóttir, forstöðumaður Greiningadeildar Landsbankans sagði á aðalfundi Samtaka atvinnulífsins fyrir stundu að tillögur um einhliða upptöku evru væri að hennar mati afturhvarf til þess tíma þegar Íslendingar töldu best að verja sjálfstæði landsins með höftum og einangrun.

Hún nefndi fleiri atriði sem hún sagði einnig væra afturhvarf.

Þau voru meðal annars, að hleypa verðbólgunni í gegn og hverfa tímabundið frá verðbólgumarkmiði Seðlabankans, að losa okkur við erlenda aðila úr krónunni og að framlengja hagvöxt með því að drífa í að nota orkuauðlindir.

Edda Rós sagði aðrar tillögur gera ráð fyrir að gengið yrði lengra á þeirri braut sem „við höfum fylgt frá árinu 1990.“

Þær væru að gera breytingar á innviðum íslensks efnahagskerfis, „þannig að við getum verið fullgildir leikendur á sviði alþjóðaviðskipta,“ sagði Edda Rós.

„Grípa þarf strax til aðgerða til að efla trú á fjármálastöðugleika a Íslandi, m.a. með því að efla gjaldeyrisforðann og ná samkomulagi við erlenda seðlabanka,“ sagði Edda Rós.

Hún sagði að stjórnvöld þurfa lýsa yfir stuðningi við verðbólgumarkmið Seðlabankans. „Við erum ekki með aðra skammtímakosti í stöðunni og stanslausar yfirlýsingar um gangleysi vaxtastefnu bankans dregur einmitt úr virkni vaxtanna – sem þó er nógu lítið fyrir,“ sagði Edda Rós.