Í kjölfar taps Íbúðalánasjóðs á falli bankanna vegna afskrifta á markaðsbréfum þeirra verður eiginfjárhlutfall sjóðsins nálægt 4%. Ekki er kveðið á um ákveðið eiginfjárhlutfall í lögum um Íbúðalánasjóð. Reglugerð mælir hins vegar fyrir um að eiginfjárhlutfall sjóðsins sé yfir 5%, og gera þarf yfirvöldum viðvart ef hlutfallið stefnir niður fyrir 4%.

Í lok júní var eiginfjárhlutfall sjóðins 8% og eigið fé nam 20,6 milljörðum króna. Í tilkynningu sjóðsins segir að ætla megi að tap Íbúðalánasjóðs vegna afskrifta á markaðsverðbréfum bankanna verði á bilinu 8-12 milljarðar króna. Miðað við að tapið væri 10 milljarðar króna færi eiginfjárhlutfall sjóðsins í 4,1%. Verði tapið á bilinu 11-12 milljarðar eða þaðan af meira er ljóst að eiginfjárhlutfallið færi vel niður fyrir 4%.

„Staða sjóðsins er þó enn sem áður sterk. Einföld ríkisábyrgð er á skuldbindingum Íbúðalánasjóðs og sjóðurinn er, þrátt fyrir þessi áföll, vel í stakk búinn til að sinna því hlutverki sem honum er ætlað samkvæmt lögum,” segir í tilkynningu Íbúðalánasjóðs.