Stjórnendur Eimskipafélagsins hafa ekki viljað gefa út hvaða verð þeir vonast til að fá fyrir Atlas Versacold, sem nú er komið í söluferli hjá kanadískum bönkum, og mikil óvissa er reyndar um hvað þeir geta fengið fyrir fyrirtækið ef á annað borð tekst að selja það.

Miðað við tölur um EBITDAmargfaldara, sem stjórnendur Eimskipafélagsins hafa nefnt, má þó gróflega skjóta á, samkvæmt útreikningum Viðskiptablaðsins, að þeir telji sig hugsanlega geta fengið yfir einn milljarð evra eða meira en 130 milljarða íslenskra króna fyrir kæli- og frystigeymslufyrirtækið kanadíska, og hugsanlega allt að 150 milljarða. Gengi það eftir myndi Eimskipafélagið ná að innleysa umtalsverðan söluhagnað af Atlas Versacold sem vafalaust væri vel þegið til þess að bæta fremur bágborna eiginfjárstöðu. Samkvæmt tilkynningu félagsins greiddi það samtals um 1,3 milljarða evra fyrir bæði Atlas og Versacold en félagið hefur þegar selt burt fasteignir fyrir um 500 milljónir evra. Miðað við það þyrfti Eimskipafélagið að fá um 800 milljónir evra vegna sölunnar til þess að sleppa á sléttu – raunar nokkru meira eða væntanlega um 900 milljónir evra þegar tekið er tillit til fjármagnskostnaðar vegna kaupanna.

Aðrir benda á hinn bóginn á að Eimskipafélagið hafi keypt Atlas og Versacold þegar verð hafi svo að segja verið í toppi og eru því mjög efins um að þeir geti fengið hærra verð en þeir greiddu á sínum tíma. Þeir hinir sömu útiloka heldur ekki að þegar upp verði staðið geti orðið tap á öllu saman, en væntanlega ekki mikið þó. Þessar misjöfnu skoðanir endurspegla sumpart þá miklu óvissu sem nú ríkir á mörkuðum og hvort eða hversu margir hafa í reynd áhuga á Atlas Versacold, en við það bætast síðan áhrif þess að Eimskipafélagið stendur í hálfgerðri nauðungarsölu, ef svo má segja, sem einnig kann að hafa umtalsverð áhrif á það verð sem hægt er að fá fyrir Atlas Versacold.

_______________________________________

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu í dag. Áskrifendur geta lesið blaðið á pdf-formi hér á vefnum. Þeir áskrifendur sem ekki hafa sótt um aðgangsorð til að lesa blaðið á vefnum geta gert það hér .