„Þeir sem komu óorði á bankann eru ekki lengur hluti af honum og bankinn er ekki lengur byggður upp á sama hátt og hann var áður. Arion banki er ekki sami banki og Kaupþing, stjórn bankans og framkvæmdastjórn er ekki sú sama og eignarhald hans er annað," segir Monica Caneman nýr stjórnarformaður Arion banka í viðtali við Viðskiptablaðið.

Arion banki var reistur á gamla Kaupþingi þegar honum var skipt upp og skilanefnd skipuð yfir gamla gamla bankanum. Ný stjórn var svo kjörin nýlega í Arion en flestum er ljóst að þetta er í grunninn sami bankinn. Monica segir þetta hluta af sögunni og verkefnið nú sé að endurvinna traust fólks.

Vinnum ekki á sama hátt

„Til þess að ávinna okkur traust samfélagsins verðum við að sýna svo ekki verður um villst að við vinnum ekki á sama hátt og gert var fyrir hrun. Það er hlutverk stjórnar, framkvæmdastjórnar og allra starfsmanna að sýna fram á að nú eru breyttir tímar og það er okkar allra að byggja upp traust markaðarins, viðskiptavina og samfélagsins í heild. Þetta gerum við með því að reka bankann okkar vel.“

Caneman segir það mikilvægt að fyrirtækið og skipulag þess sé gagnsætt, að góðir stjórnhættir (e. corporate governance) séu hafðir í heiðri og að forysta bankans missi ekki stjórn á því sem verið er að gera. „Að sjálfsögðu verðum við líka að  fylgja þeim lögum og reglum sem gilda í samfélaginu. Það er grundvallarforsenda þess að ávinna bankanum traust. Við eigum að einbeita okkur að því sem er hefðbundin og heilbrigð bankastarfsemi og það er okkar stefna,“ segir hún.

________________________

Hægt er að lesa ýtarlegt viðtal við nýjan stjórnarformann Arion banka í nýjasta tölublaði Viðskiptablaðsins.