Í mars voru einungis búin til 126 þúsund ný störf í Bandaríkjunum, sem er lægsta talan síðan desember 2013 og lágt undir væntingum. Til samanburðar urðu 264 þúsund ný störf til í febrúarmánuði. Þessu greinir CNN frá.

Atvinnuleysi mælist það sama milli mánaða, eða 5,5%.

Lítil aukning í tímakaupi hefur einnig valdið vonbrigðum, en tímakaup hækkaði um 2,1% á síðasta ári þegar markmiðið var aukning um 3,5%. Í fyrra voru tímalaun að meðaltali 24,34 Bandaríkjadalir, eða um 3300 íslenskar krónur, og hafði einungis hækkað upp í 24,86 Bandaríkjadali, eða sem nemur 3400 krónum í ár.

Talið er að léleg launaþróun sé ein megin ástæða þess að Bandaríkjamenn eru ekki að finna fyrir efnahagsbata og ástæða þess að þeir eru ekki að eyða miklu. Fyrsti ársfjórðungur olli því miklum vonbrigðum eftir bjartsýni árið 2014.