„Ég myndi ekki taka svo djúpt í árinni að eftir kaupin verði ekkert eftir af Teris, það er alls ekki svo. Það er ekki verið að flytja allar þjónustur til Reiknistofu bankanna.  Núna bíður okkar það verkefni að skipuleggja hvernig verður staðið að rekstri þeirra til framtíðar. Sparisjóðirnir munu örugglega hafa áfram með sér eitthvað samstarf um tæknilausnir. Það er mjög líklegt að Teris gegni þar einhverju hlutverki,“ segir Þorsteinn Björnsson, framkvæmdastjóri upplýsingatæknifyrirtækisins Teris.

Teris
Teris

Greint var frá því um hádegið að Reiknistofa bankanna hafi gert tilboð í hluta af eignum Teris. Meðal annars er um að ræða netbankalausnir, samþættingarlausnir og ýmsar fjölbankalausnir sem Teris hefur þróað. Teris áformar að útvista öðrum rekstrarþáttum til annarra tæknifyrirtækja sem Reiknistofa bankanna kaupir ekki.

Teris var stofnað í kringum tækniþjónustu við sparisjóðina fyrir um tuttugu árum og hét þá Tölvumiðstöð sparisjóðanna. Umsvifin snarminnkuðu í fjármálahruninu og við fall sparisjóðanna. Eftir að Spron fór á hliðina var Byr með 40% hlutdeild af heildarviðskiptum Teris. Íslandsbanki keypti Byr í fyrrahaust og hefur innlimað rekstur bankans. Töluvert óvissa hefur ríkt um rekstur Teris af þessum sökum og skýrist hún að hluta nú með tilboði Reiknistofu bankanna í hluta af rekstri fyrirtækisins.

Líklegt er að kaup Reiknistofu bankanna á hluta Teris gangi í gegn í mars. Þorsteinn segir núverandi húsnæði fyrirtækjanna ekki rúma bæði fyrirtæki og því telur hann líklegt að fyrirtækin flytji í kjölfarið undir eitt þak í sumar.

Flestir fylgja með í kaupunum

Þorsteinn segir að gangi viðskiptin eftir mun meirihluti starfsfólks flytjast yfir til Reiknistofu bankanna. Það fari þó eftir því hversu mikil starfsemi færist yfir til Reiknistofunnar. Starfsmenn Teris eru 71 talsins. Þar af eru fjórir að vinna uppsagnarfrest sinn.

Þorsteinn veit sjálfur ekki hvað verður um eigið starf: „Ég reikna með að mér bjóðist starf hjá Reiknistofu bankanna,“ segir hann.

Höfuðstöðvar Byr
Höfuðstöðvar Byr
© Haraldur Jónasson (VB MYND/HARI)