Enginn sinnir loftrýmisgæslu yfir Íslandi í desember í stað Breta. Næst er gert ráð fyrir loftrýmisgæslu yfir Íslandi á fyrri hluta ársins 2009.

Loftrýmisgæsla yfir landinu er hluti af sameiginlegum vörnum NATO. Nýlega upplýsti Ingibjörg Sólrún Gísladóttir utanríkisráðherra að NATO hefði tekið ákvörðun um að hætta við fyrirhugaða loftrýmisgæslu Breta yfir Íslandi í desember.

Ljóst er að sú ákvörðun á rætur sínar að rekja til ágreinings Íslendinga og Breta vegna Icesave-reikninga Landsbankans og beitingu breskra hryðjuverkalaga til að frysta eignir bankans þar í landi.

Samkvæmt upphaflegu samkomulagi við NATO var gert ráð fyrir því að loftrýmisgæsla færi fram fjórum sinnum hér á landi á ári hverju.

Samkvæmt því komu Frakkar hingað í þrjár vikur í maí og Bandaríkjamenn í ágúst. Bretar áttu síðan að koma í desember en nú hefur verið hætt við það, eins og áður sagði.