Talsverð barátta virðist hafa átt sér stað um eignarhald á Opnum Kerfum undanfarnar vikur. Í desember á síðasta ári hóf Straumur Fjárfestingarbanki að auka hlut sinn í félaginu og átti um 20% hlut um síðustu áramót. Hélt Straumur svo áfram að bæta við sig í félaginu á þessu ári og seldi um miðjan ágúst 35,8% hlut til Kögunar. Rétt eftir þessi viðskipti keypti Frosti Bergsson núverandi stjórnarformaður Opinna Kerfa 3,1% hlut og á nú tæp 17% hlutafjár. Í gær tilkynnti Straumur svo um að félagið hefði eignast 6,4% hlut í Opnum kerfum og samkvæmt nýjasta hluthafalista á Straumur 7,1% í félaginu. Saman eiga Kögun og Straumur því 42,9% hlutafjár í Opnum kerfum en Straumur ræður auk þess yfir 26,4% hlut í Kögun. Í Vegvísi greiningardeildar Landsbankans eru leiddar að því líkur að yfirtaka Kögunar á Opnum Kerfum sé í farvatninu en yfirtökuskylda skapast við 40% eignarhlut.

Kögun hafði óskað eftir hluthafafundi hjá Opnum Kerfum í dag klukkan þrjú þar sem kjósa átti nýja stjórn hjá félaginu en hálftíma fyrir fund var honum aflýst af hálfu Kögunar.

Byggt á Vegvísi Landsbankans.