Breskir forstjórar eru með „fáránlega há laun“ og það hefði engar neikvæðar afleiðingar ef laun þeirra yrðu lækkuð. Þetta er niðurstaða umfangsmikillar rannsóknar á vegum London School of Economics á kjörum breskra forstjóra.

Niðurstöðurnar eru birtar á sama tíma og árleg úttekt The High Pay Centre um laun forstjóra fyrirtækja í bresku FTSE 100 vísitölunni. Niðurstöður hennar leiða í ljós að meðallaun þeirra forstjóra eru um 4,6 milljónir punda á ári eða um 839 milljónir íslenskra króna. Það þýðir að meðalmánaðarlaun forstjóra fyrirtækja í FTSE 100 vísitölunni eru um 70 milljónir króna.

Rannsóknin byggir m.a. á viðtölum við starfsmenn 10 alþjóðlegra ráðningaskrifstofa sem standa á bak við 70-90% af ráðningum forstjóra stærstu fyrirtækja í Breltandi. Þeir eru sammála um að laun flestra breskra forstjóra eru „fáránlega há“.

„ Miðlungs “ stjórnendur

Þeir voru líka sammála um að fyrir hvern forstjóra hefðu hundrað aðrir geta sinnt starfinu jafn vel og að margir þeir sem hlutu starfið væru „miðlungs“ stjórnendur. Rannsóknin leiðir í ljós að markaðurinn fyrir forstjóra stórra fyrirtækja í Bretlandi er orðinn svo brenglaður að það hefði í raun slæmar afleiðingar fyrir forstjóra að gefa í skyn að hann eða hún væri tilbúinn að sinna starfinu fyrir lægri laun en gengur og gerist á markaðnum.

„Það að biðja um hærri laun getur í sumum tilfellum jafnvel tryggt manni forstjórastöðuna,“ sagði einn starfsmanna ráðningaskrifstofanna sem tekinn var í viðtal fyrir rannsóknina.

Nánar er fjallað um málið á vef Guardian .