Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins stuðlar sjálf ekki að því markmiði sínu að auka samkeppni í tæknigeiranum, samkvæmt frétt Reuters.

Evrópusambandið vill auka veg og vanda forrita sem vinna með öðrum forritum. Samkvæmt frétt Reuters er það lykilatriði í því veldi sem Microsoft hefur byggt upp að t.d. Office pakkinn opnar ekki skjöl sem unnin eru í öðrum forritum, nema sérstökum hugbúnaði sé bætt við. Microsoft segjast munu bæta úr því á næsta ári, í kjölfar lögsókna Evrópusambandsins á hendur félaginu. Microsoft eru taldir hafa brotið samkeppnislög og hafa þegar borgað 1,68 milljarð evra í sekt vegna þess.

Evrópusambandið hefur enn ekki komið upp hjá sér tölvukerfi sem vinnur með öðrum kerfum. Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins samdi í fyrra við Microsoft um að greiða félaginu 4,5 milljónir evra á ári fram til 2011 fyrir að útvega starfsmönnum sínum hugbúnað.

Borgaryfirvöld Munchen hafa þegar losað sig við Microsoft og nota nú „opinn hugbúnað“. Yfirmenn Evrópusambandsins hyggjast funda með borgaryfirvöldum Munchen á næstunni um hvernig best sé að snúa sér í þessum efnum.