Jean-Claude Trichet, seðlabankastjóri Evrópu, hringdi viðvörunarbjöllu í gær þegar hann fullyrti að fyrstu einkenni neikvæðra áhrifa verðbólgu á vinnumarkaði á evrusvæðisins væru að koma fram.

Í ræðu sinni á Evrópuþinginu sagði hann að launaskrið væri að grafa undan tilraunum Evrópska seðlabankans til þess að koma böndum á heildarverðbólgu á evrusvæðinu, en hún mælist nú 200 punktum yfir verðbólgumarkmiðum bankans.

Hann sagði jafnframt að stefnusmiðir bankans hefðu „þungar áhyggjur” af slíkum víxlverkunaráhrifum.

Víxlverkunin felst í því að í kjölfar hækkandi verðlags krefjast launþegar hærri launa sem leiðir svo til hærra verðlags vegna aukins kostnaðar atvinnuveitenda.

Evrópski seðlabankinn hækkaði stýrivexti um 25 punkta í síðustu viku og tók þar með áhyggjur af verðbólguþrýstingi fram yfir ógnina sem stendur af niðursveiflu í hagkerfum aðildarríkja myntbandalagsins. Ákvörðunin var meðal annars túlkuð sem skilaboð til aðila vinnumarkaðarins um að forðast slík víxlverkunaráhrif við gerð kjarasamninga.

Samkvæmt breska blaðinu Financial Times þá jókst kostnaður við hverja vinnustund á evrusvæðinu um 3,3% á fyrsta fjórðungi þessa árs. Þetta er mesta aukning á kostnaðinum síðan árið 2003.

Það vekur sérstaklega athygli að kostnaðurinn jókst um 5,7% á Spáni en ljóst er að hagkerfi landsins stendur frammi fyrir djúpstæðri niðursveiflu í kjölfar þess að feiknarmikil fasteignabóla sprakk þar syðra.

Annað í máli Trichet virðist styðja þá skoðun að ekki verði frekari vaxtahækkanir á evrusvæðinu að sinni og bendir það til þess að stefnusmiðir bankans telji að minni umsvif í hagkerfum aðildarríkja dugi til þess að minnka verðbólguþrýsting.

Þýska útflutningsvélin hefur knúið hagvaxtarvagninn á evrusvæðinu áfram að undanförnu og hefurmargan undrað hversu lítil áhrif lánsfjárkreppan hefur haft áhrif á hagkerfi landsins. En að undanförnu hafa komið fram vísbendingar um að hægja sé á þýsku efnahagsvélinni.

Í gær birtust tölur um að útflutningur Þýskalands hefði dregist saman um 3,2% í maí og er það mesta fall síðan árið 2005.

Endurspeglar þetta fyrirsjáanlegan samdrátt vegna minnkandi eftirspurnar í alþjóðahagkerfinu. Einnig sýna hagtölur um iðnframleiðslu í Þýskalandi í maímánuði mestan samdrátt síðan í ágúst árið 1997.