Frakkland, Spánn, Pólland, Holland og Slóvenía hafa öll fengið lengri frest til að koma böndum á ríkisfjármálin, að því er segir í frétt BBC. Ástæðan mun vera áhyggjur forsvarsmanna sambandsins af litlum hagvexti í Evrópusambandinu.

Frakkland mun t.d. fá tvö ár til viðbótar til að koma fjárlagahallanum undir 3% af vergri landsframleiðslu, en evruríki eru skuldbundin til að halda fjárlagahallanum innan þeirra marka, þótt árangurinn hafi verið afar mismikill, einkum eftir hrunið 2008.

Forseti framkvæmdastjórnarinnar, Jose Manuel Barroso segir að þennan aukafrest verði að nota með skynsamlegum hætti til að auka samkeppnishæfni.