Í mánaðarskýrslu Íbúðarlánasjóðs fyrir ágúst 2014 segir að í ljósi umræðu um skort á leiguhúsnæði vilji sjóðurinn leggja sitt af mörkum með breyttu verklagi, en undirstrikar þó um leið þann ramma sem sjóðnum er settur.

Í skýrslunni segir að á þeim stöðum á landsbyggðinni þar sem takmörkuð velta sé á fasteignamarkaði hafi Íbúðalánasjóður tekið upp nýtt verklag með eignir sjóðsins. Á þessum stöðum verði þær eignir sem eru skráðar á sölu og eru í bestu ásigkomulagi jafnframt samhliða boðnar til leigu. Eftirspurn eftir leigu eða fasteignum til kaups ræður því í hvorn farveginn þessar eignir sjóðsins fara.

Þá segir einnig að 75% fullnustuíbúða muni fara beint í leigu. Íbúar í eign sem sæti fullnustu eigi þannig kost á að búa áfram í eigninni og leigja hana. Þannig fari þrjár af hverjum fjórum íbúðum sem Íbúðalánasjóður tekur yfir beint í leigu til þess sem í þeim búa við fullnustu.

Í skýrslunni áréttar Íbúðalánasjóður að íbúðarhæft húsnæði jafngildi ekki leiguhæfu húsnæði. Um 140 eignir séu ekki í söluferli því þær eru annaðhvort óíbúðarhæfar eða á vinnslustigi á leið í sölu eða leigu. Á leigumarkaði gildi strangari kröfur um ástand og frágang íbúða. Margar af þeim eignum sem sjóðurinn tekur yfir standist illa eða ekki þær kröfur sem leigumarkaðurinn geri til húsnæðis nema farið sé í talsverðar lagfæringar. Sjóðurinn hafi reynt að bregðast við mikilli þörf fyrir leiguhúsnæði og farið í töluverðar endurbætur á um 530 fasteignum á síðustu tveimur árum um land allt, þó einkum á Suðurnesjum.