*

mánudagur, 14. júní 2021
Innlent 2. maí 2018 12:03

Facebook semur við Íslendinga

Facebook kaupir hugbúnað og tækni, sem ber kennsl á myndefni, af íslenska sprotafyrirtækinu Videntifier.

Ritstjórn
Herwig Lejsek er framkvæmdastjóri Videntifier sem náð hefur stórum samning við Facebook.
Haraldur Guðjónsson

Íslenska sprotafyrirtækið Videntifier hefur gert stóran samning við Facebook, en í honum felst að Facebook kaupir afnot af hugbúnaði og tækni sem fyrirtækið hefur þróað undanfarinn áratug, sem nýtt hefur verið meðal annars til að vernda höfundarrétt af myndum. Hingað til hefur Interpol og ýmsar löggæslu- og öryggisstofnanir verið stærstu viðskiptavinir fyrirtækisins.

Samningurinn markar tímamót í sögu Videntifier, bæði vegna umtalsverða tekna sem honum fylgja og vegna þeirrar viðurkenningar sem felst í því að stærsti samfélagsmiðill heims hyggist nýta sér tækni fyrirtækisins segir í fréttatilkynningu.

Ber kennsl á myndefni hvort sem myndbönd eða kyrrmyndir

Fyrirtækið Videntifer var stofnað árið 2008 til að hagnýta byltingarkennda tækni sem þróuð var í Háskólanum í Reykjavík. Með tækninni geta tölvur borið kennsl á flókið myndefni, bæði kyrrmyndir og kvikmyndir, óháð framsetningu og breytingum.

Tæknin var þróuð af lykilstofnendum fyrirtækisins Herwig Lejsek og Friðriki Ásmundssyni, í samstarfi við Björn Þór Jónsson, dósent við HR og fleiri. Tókst svo vel til að einkaleyfi voru fengin fyrir tæknina og fyrirtækið Videntifier var stofnað.

Segir samning við Facebook vera viðurkenningu

Herwig Lejsek, framkvæmdastjóri Videntifier segir samninginn vera mikla viðurkenning á þeirri tækni sem fyrirtækið hefur verið að þróa síðustu 10 ár. „Það hefur alltaf verið markmið okkar að tæknin sé bæði hraðvirk og nákvæm þannig að hún beri rétt kennsl á myndir og geti ráðið við risastór verkefni," segir Herwig. „Að stærsta fyrirtækið í samfélagsmiðlum nýti hana sýnir að það hefur tekist.“

Háskólinn í Reykjavík var einn af stofnaðilum Videntifier og hefur Ari Kristinn Jónsson, rektor HR, verið stjórnarformaður fyrirtækisins frá stofnun. Hann er að vonum ánægður með samninginn. „Þetta er meiriháttar áfangi í þróun fyrirtækisins og allir þeir sem að því hafa komið eiga heiður skilinn fyrir sitt framlag, sérstaklega starfsmenn,“ segir Ari Kristinn.

„Þetta er líka gott dæmi um hversu mikil tækifæri og verðmæti er hægt að skapa á grunni hugvits hér á Íslandi, en það mun skipta Ísland öllu til framtíðar að hafa mannauð og umhverfi sem skila svona áföngum miklu oftar."

Interpol er stærsti viðskiptavinurinn

Hjá Videntifier starfa nú ellefu starfsmenn og það selur þjónustu sína til tuga aðila í fjölmörgum löndum í Evrópu, Norður-Ameríku, Asíu og víðar. Interpol er nú stærsti viðskiptavinurinn og flestir viðskiptavinir eru stofnanir sem sinna lögæslu- og eftirlitsstörfum. Hjá þessum aðilum er tæknin notuð til að bera kennsl á ólöglegt myndefni. Tæknin hefur einnig verið notuð til að vernda höfundarrétt.