Fasteignafélagið FAST-1, sem er í meirihlutaeigu þriggja lífeyrissjóða, var rekið með 36,5 milljóna króna tapi í fyrra. Rekstrarhagnaður fyrir matsbreytingu og virðisrýrnun nam 40,7 milljónum króna. Félagið var stofnað í janúar 2012 og er um fyrsta ársreikning þess að ræða.

Matsbreyting fjárfestingareigna var jákvæð um 388,1 milljón króna, en virðisrýrnun eignarhlutar í dótturfélaginu FAST-2 var neikvæð um 319,5 milljónir. Eftir þessa tvo liði nam rekstrarhagnaður fyrirtækisins 109,3 milljónum króna, en fjármagnsliðir voru neikvæðir um 69 milljónir króna.

Skattgreiðslur námu 76,7 milljónum króna og því var niðurstaðan neikvæð.

Eignir félagsins námu 2,6 milljörðum króna í árslok 2012, eigið fé var 777,5 milljónir og skuldir námu 1,8 milljörðum. Þar af námu langtímaskuldir 1,3 milljarði króna.

Stærstu eigendur fyrirtækisins eru Gildi lífeyrissjóður, Lífeyrissjóður verslunarmanna og Festa lífeyrissjóður, sem eiga % í félaginu hver. Félagið á þrjár fasteignir, Skúlagötu 21, Vegmúla 3 og Skútuvog 1.