Ein aðalkrafa Félags háskólakennara er að öllum akademískum starfsmönnum verði varpað inn í sömu launatöflu. Í Fréttablaðinu í dag kemur einnig fram að þess sé krafist að laun annarra starfsmanna verði færð til samræmis við breytingar sem verða á launum akademískra starfsmanna.

Laun háskólakennara og prófessora ákvarðast að hluta til af því hversu margar rannsóknir þeir gera og hversu margar greinar þeir fá birtar í viðurkenndum vísindaritum. Þetta er reiknað til stiga samkvæmt ákveðnum reglum og hækkar laun þeirra.

„Sem dæmi má taka að lektor sem hefur unnið sér inn 400 stig vegna rannsókna og greinaskrifa er með 455 þúsund krónur á mánuði. Prófessor sem er með sama stigafjölda er með 523 þúsund á mánuði. Háskólakennarar telja að laun þessara tveggja manna eigi að vera þau sömu,“ segir í Fréttablaðinu. Háskólakennarar og akademískir starfsmenn vilja þannig að laun þeirra hækki um 10 til 14 prósent.

Félag háskólakennara telur að þeir hafi dregist aftur úr prófessorum í launum á undanförnum misserum.