Tæp 65% félagsmanna Samtaka iðnaðarins telja að aðstæður í efnahagslífinu fyrir atvinnurekstur séu frekar eða mjög slæmar. Um fjórðungur telur aðstæður hvorki góðar né slæmar en 8,4% að aðstæður séu góðar. Þegar spurt var um horfur á næstu 6-12 mánuðum kemur í ljós að 53% telja að aðstæður muni ekki breytast en 22,5% að þær muni verða nokkru betri. 24% telja að aðstæður verði verri en þær eru núna. Er þetta meðal niðurstaðna í könnun sem Outcome gerði fyrir Samtök iðnaðarins í tilefni af Iðnþingi.

Spurt var hversu mikil eða lítil áhrif gjaldeyrishöftin hafa á rekstur fyrirtækja. Alls segja 29% að höftin hafi hvorki mikil né lítil áhrif, en 49% að áhrifin séu lítil eða engin. Aðeins tæp 20% segja að gjaldeyrishöftin hafi mikil mikil áhrif á reksturinn. Í ljós kemur að þeim mun hærra sem hlutfall útflutnings af heildarumsvifum fyrirtækisins er þeim mun meiri áhrif hafa höftin.

Spurt var hversu vel eða illa krónan hentar sem gjaldmiðill fyrir þinn atvinnurekstur. Alls sögðust 26% að krónan hentaði vel, 41,2% hvorki vel né illa en 29% illa. Í ljós kemur að fyrirtæki í tækni- og hugverkaiðnaði telja frekar að krónan henti illa en annars er lítill munur eftir öðrum greinum. Greinilegur munur er á milli byggðarlaga – þannig eru fyrirtæki á landsbyggðinni sáttari með krónuna en fyrirtæki á höfuðborgarsvæðinu.